IS: Broken/Unbreakable listasýning

IS: Broken/Unbreakable listasýning

Staður: Ráðhús Reykjavíkur (Tjarnargötu 11, 101 Reykjavík)

Tímabil: 4. - 14.nóvember 2022

Frá 4. - 14.nóvember mun Sjana Rut halda listasýningu í Ráðhúsi Reykjavíkur þar sem hún mun sýna málverk sem hún málaði fyrir hvert lag af nýjustu plötunum hennar, Broken og Unbreakable.

Broken/Unbreakable verkefnið er stærsta verkefni Sjönu Rutar hingað til. Það samanstendur af tvískiptri stórplötu (34 lög í heildina) ásamt 36 málverkum, málverk við hvert lag á plötunni ásamt plötuumslögum.

Verkefnið fjallar um kynferðisofbeldi sem Sjana Rut varð fyrir sem barn. Þetta er svokölluð concept/þema plata ásamt málverkum og er saga í gangi allan tímann. Sagan leiðir þig dimman dal barnæskunnar og inn á blómstrandi engi framtíðarinnar, frá fortíðinni til dagsins í dag.

Fyrri hlutinn, Broken, er þyngsti hluti sögunnar og gefur innsýn inní martaðaveröld brotinnar barnssálar, þar sem tómleikinn er yfirvofandi.

Við skoðum Broken með brotnum augum barnssálarinnar og hoppum svo yfir í hugarheim fullorðinnar manneskju þar sem við byrjum að sjá hlutina í öðrum litum.

Broken heimurinn er margbrotinn, hann keyrir stóra hluta vegferðarinnar á myrkri og vonleysi og endar svo í vonargeisla.

Á seinni kaflanum, Unbreakable, er farið út í meiri töffaraskap og glettni en er sagan þó berskjölduð og dulúðug á köflum.

Tón- og myndlistin haldast í hendur, ég sem tónlistina útfrá myndrænum sýnum og jafnvel draumum. Ég sé oft fyrir mér myndrænu hliðina áður en ég sem tónlistina og textana og svo öfugt, það gengur í báðar áttir.

Þetta verkefni er ólíkt öllu því sem ég hef gefið út áður að því leyti til að það er mikið umfangsmeira og hefur mikla tilfinningalega þýðingu fyrir mig, þar sem ég þurfti að upplifa drauga fortíðar og setja sjálfa mig aftur í þennan þunga hugarheim sem fullorðin en þetta verkefni er líka stór hluti af mínu bataferli.

Ég varð ennþá ákveðnari að láta sjónrænu hliðina af þessu verkefni verða að veruleika vegna fjölskylduvins sem er heyrnalaus. Hún getur ekki túlkað hljóðheiminn en hún getur þó lesið textana og rýnt í myndheiminn, málverkin gera öðrum líka kleift að fá dýpri innsýn í þessa sögu.

Ég áttaði mig líka á því í öllu þessu ferli hversu hollt það var fyrir mig að takast á við sjónrænu hliðina á áföllunum og sömuleiðis gaf það mér mikinn drifkraft að þetta gæti mögulega hjálpað öðrum í sinni baráttu við áföll.

 

Smelltu hér til að lesa um hvert listaverk.

Hlustaðu á Broken og Unbreakable á Spotify.

Back to blog